Merki Knattspyrnufélagsins Vals   YNGRI FLOKKAR | STYRKTARSJÓÐUR

Knattspyrnufélagið Valur hefur starfræktan styrktarsjóð sem er ætlað að tryggja að allir núverandi og framtíðar iðkendur Vals geti staðið straum af þeim kostnaði sem fylgir því að stunda íþróttir í Val, ásamt því að tryggja að ekkert barn sem vilji stunda íþróttir verði meinað að gera slíkt sökum fjárskorts á heimili sínu.

Allar umsóknir eru trúnaðarmál sem aðeins stjórn sjóðsins hefur aðgang að. Þrír skipa stjórn sjóðsins, einn er tilnefndur af aðalstjórn Vals, annar af stjórn Barna- og unglinasviðs Vals og þriðji er starfandi framkvæmdastjóri félagsins.

 

Stjórn styrktarsjóðs Vals er sem hér segir fyrir árið 2023-2024:

  • Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Vals
  • Louisa Christina, barna- og unglingasvið Vals
  • Þorgrímur Þráinsson, tilnefndur af aðalstjórn Vals

 

Öllum umsóknum skal skilað rafrænt á netfangið styrmir@valur.is   eða í umslagi merktu styrktarsjóður á skrifstofu Vals. 

 

Smelltu hér til að fylla út umsóknareyðublað

Press here to fill out application form in english

 

Úthlutunarreglur sjóðsins

1. grein

Sjóðurinn heitir styrktarsjóður. Sjóðurinn skal að öllu leyti vinna samkvæmt skipulagsskrá sem aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Vals hefur staðfest.

2. grein

Tilgangur sjóðsins er að styrkja efnaminni iðkendur til þátttöku í starfi barna- og unglingasviðs Vals. Styrktarsjóður mun, eftir bestu getu, styrkja iðkendur um æfingagjöld, ferðakostnað vegna keppnisferða og veita styrki til kaupa á æfingabúnaði, til að mynda skóm og æfingafatnaði.

3. grein

Stjórn sjóðsins er á hverjum tíma skipuð þremur aðilum. Einn stjórnarmaður skal árlega tilnefndur af aðalstjórn Vals. Annar stjórnarmaður skal árlega tilnefndur af barna- og unglingasviði Vals og sá þriðji skal vera starfandi framkvæmdastjóri Vals, sbr. ákvæði 5. gr. skipulagsskrár.

4. grein

Við mat á umsóknum skal sjóðsstjórn leggja til grundvallar umsóknareyðublöð sem skulu fyllt út af kostgæfni. Foreldrar og forráðamenn iðkenda Vals geta sótt um styrk úr sjóðnum. Flokkar, hópar eða einstaklingar innan flokka félagsins geta sótt um ferðastyrki vegna æfinga- eða keppnisferða. Styrkir eru ekki veittir úr sjóðnum til reglubundinna móta (Íslandsmót, bikarkeppni og þess háttar). Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til að meta umsóknir í samræmi við 4. gr. skipulagsskrár.

5. grein

Veita skal styrki úr sjóðnum a.m.k. einu sinni á ári. Sjóðsstjórn getur þó metið það eftir þörfum og áskilur sér rétt til að veita úr sjóðnum allt að þrisvar sinnum á ári. Umsóknir skulu berast til framkvæmdastjóra Vals í umslagi merktu styrktarsjóður. Umsóknir og önnur gögn varðandi umsóknir skulu meðhöndluð sem trúnaðarmál. Sjóðsstjórn ber að svara öllum umsóknum með formlegum hætti.

6. grein

Styrkir til einstaklinga vegna sérstakra aðstæðna geta tekið yfir æfingagjöld og annan kostnað við þátttöku í íþróttinni. Styrkir vegna ferðakostnaðar miðast við almennan kostnað (flugmiða, rútuferðir og gistingu), við þátttöku í móti eða annan kostnað sem til fellur vegna æfinga- eða keppnisferðar. Styrkir vegna starfsemi yngri flokka eru ekki veittir til launakostnaðar.

7. grein

Styrkir verða greiddir út í síðasta lagi tveimur vikum eftir úthlutun.

8. grein

Úthlutunarreglur þessar skal endurskoða árlega og vera samþykktar af aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Vals.