Merki Knattspyrnufélagsins Vals   Einelti & samskiptavandi

Í félagsstarfi þar sem margir koma saman getur komið upp samskiptvandi innan hópa sérstaklega þegar unnið er með börnum, þar sem þau eru að þroskast og æfa sig í samskiptum. Ef gripið er fljótt inn í samskiptvanda eða einelti er í mörgum tilvikum hægt að minnka líkur á alvarlegum afleiðingum.

Það er því mikilvægt að ábyrgðaraðilar séu vel vakandi fyrir því hvernig þátttakendum í félagsstarfinu líður og grípi inn í um leið og upp kemur vandi. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir þáttum eins og samskiptavanda, baktali, stríðni, augngotum og útskúfun. Hvetja þarf einstaklinga til að láta vit ef þau verða fyrir endurtekinni stríðni eða annars sem einkennir einelti, eða ef þau verða vör við slíkt á milli annarra einstaklinga innan íþróttastarfsins.

 

Skilgreining á einelti

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera litið úr, móðga, særa, hunsa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. 

- Smelltu hér til að skoða Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs -


Birtingarmyndir og afleiðingar eineltis

Einelti hefur margar mismunandi birtingarmyndir og getur verið líkamlegt, andlegt, félagslegt og rafrænt áreiti sem hefur neikvæð áhrif og beinist endurtekið að einum eða fleiri einstaklingum.

Einelti hefur neikvæðar afleiðingar fyrir þá sem fyrir því verða og þá sem taka þátt í því. Vanlíðan, kvíði, þunglyndi og lágt sjálfsmat eru dæmi um afleiðingar sem gætu haft áhrif á þolendur eineltis. Einelti getur þrifist alls staðar þar sem samskipti eiga sér stað, án tillits til aldurs fólks, vitsmunaþroska, efnahags, stéttar, stöðu eða búsetu.


Skilgreining á neteinelti

Neteinelti er yfirleitt skilgreint sem neikvætt áreiti af ásettu ráði af höndum eins aðila eða hóps fólks gagnvart öðrum einstaklingi á rafrænu formi. Um er að ræda áreiti sem getur falið í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi í gegnum hvers konar upplýsinga- og samskiptatækni. Neteinelti finnst á meðal allra aldurshópa, kynja og hópa fólks. Neteinelti getur farið fram hvar sem er og hvenær sem er og birtingarmyndirnar eru margar.


Fyrirbyggjandi aðgerðir

Starfsfólk, sjálfboðaliðar, þátttakendur i félagsstarfi og forsjáraðilar þeirra skulu fræddir um stefnu félags í eineltismálum og aðgerðaáætlun ætti að vera aðgengileg. Ábyrgðaraðilar skulu þekkja verkferla og leitast við að leysa úr ágreiningi og samskiptavanda um leið og hann kemur upp.

Mikilvægt er að þau sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð, þekki einkenni eineltis og viti hvernig best er að leysa úr slíkum vanda. Æskilegt er að bjóða starfsfólki og sjálfboðaliðum félags reglulega upp á fræðslu um einelti og upprætingu þess.

Ábyrgðaraðilar sem starfa í íþrótta- og æskulýðsstarfi þurfa að vera vakandi fyrir því hvernig þátttakendum í starfinu líður og grípa inn í  um leið og samskiptavandi kemur upp. Hvetja þarf þátttakendur til að láta vita ef þau verða fyrir endurtekinni stríðni eða annars sem einkennir einelti, eða ef þau verða vör við slíkt á milli annarra einstaklinga. Einnig þarf að hvetja forsjáraðila til að láta félag sitt vita ef börn og ungmenni segja þeim frá atvikum í starfinu sem benda til þess að um einelti sé að ræða.

Viðbragðsáætlun

 Smelltu hér til að skoða Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs

Hvernig bregðast skal við tilkynningum er varða samskiptavanda eða einelti

Ábyrgðaraðili sem verður var við samskiptavanda eða ágreining skal reyna leysa úr honum eins fljótt og unnt er. Það er hægt að gera meðal annars með því að: 

  • Ræða við málsaðila, gefa öllum færi á að segja sína hlið málsins og leysa misskilning.
  • Finna rót vandans og útkljá mál með samtali.
  • Eiga almennt samtal um hegðun og framkomu við hópinn sem um ræðir. 
  • Fá fræsðlu um æskileg samskipti fyrir hópinn sem um ræðir
  • Vinna markvisst að betri samskiptum og bættari menningu innan hóps.
  • Ábyrgðaraðilar geta haf samband við samskiptaráðgjafa sem leiðbeinir í slíkum málum.

 

   Öllum er heimilt að tilkynna um einelti beint til samskiptaráðgjafa

                        og eru allar tilkynningar teknar alvarlega


Aðgerðaáætlun & úrvinnsla

  1. Þegar stjórn félags eða öðrum sambærilegum aðila berst tilkynning um einelti innan félagsins sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir tilraunir til þess, skal senda tilkynningu til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
  2. Þátttakendur og forsjáraðilar þeirra geta líka tilkynnt eineltismál beint til samkiptaráðgjafa. 
  3. Gott er að styðjast við tilkynningaform vegna eineltis (smelltu hér til að sækja tilkynningarform) þegar máli er vísað til samskiptaráðgjafa til að nauðsynlegar upplýsingar berist. 
  4. Samskiptaráðgjafi tekur við málinu og hefur könnun með því að afla upplýsinga frá þeim málsaðilum sem þurfa þykir. Upplýsingaöflun skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að meta umfang vandans.
  5. Ef um börn er að ræða skulu forsjáraðilar þeirra upplýstir um tilkynninguna.
  6. Samskiptaráðgjafi upplýsir félag og málsaðila um niðurstöður könnunar og leiðbeinir varðandi mögulegar lausnir. Viðbrögð eru ákveðin út frá fyrirliggjandi upplýsingum og í eins miklu samráði við málsaðila og hægt er. 
  7. Ábyrgðaraðilar sem hafa unnið með málsaðilum, fylgjast með þeim og eru vakandi fyrir því hvort eineltið taki sig upp aftur. Ef svo er verður brugðist við.
  8. Samskiptaráðgjafi fylgist með gangi mála í þann tíma sem þurfa þykir frá því að úr því var leyst og kannar stöðuna á því tímabili og bregst aftur við ef þörf er á.
  9. Veita upplýsingar til allra málsaðila þegar máli er lokað.

 

Við vinnslu eineltismála þarfa að hafa eftirfarandi í huga:

  • Tryggja þarf öryggi þolanda.
  • Stjórnendur félags skulu, að höfðu samráði við samskiptaráðgjafa, grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi iðkunar- eða vinnutilhögun meints þolanda og meints geranda. Reyna skal að ná sáttum um vinnutilhögun á meðan málið er í rannsókn.
  • Leggja skal áherslu á jákvæð samskipti og að virðing sé borin fyrir öllum aðilum máls.
  • Allir aðilar máls þurfa að fá stuðning og aðstoð við að vinna úr sínum málum, þá bæði sá sem kvartar og sá sem kvartað er yfir. 
  • Einnig gæti þurft að vinna almennt með menningu og samskipti innan hópsins í heild.
  • Leggja skal áherslu á gott samstarf við forsjáraðila og halda þeim upplýstum um það hvernig verið sé að vinna í málinu.
  • Mikilvægt er að kanna hvort vandinn sé bundin við íþrótta-/æskulýðsstarf eða hvort verið er að vinna að vandanum á öðrum vettvangi eins og í skóla.