Hlíðarendi í 84 ár - Ágrip úr sögu
Vals
Nú eru 84 ár liðin frá kaupum
Knattspyrnufélagsins Vals á býlinu Hlíðarenda. Því er ekki úr vegi
að rifja aðeins upp söguna og í þessu greinarkorni er stuðst við 70
ára afmælisritið, Valur vængjum þöndum, 100 ára afmælisritið, Áfram
hærra, Valsblaðið o.fl.
Á gamlársdag 1914 gaf bæjarstjórn
Reykjavikur út erfðafestubréf fyrir 5,5 hekturum lands til Jóns
Kristjánssonar, sem gaf landinu nafnið Hlíðarendi.
Fjórum árum síðar, eða árið 1918, seldi hann
landið Sveini Pálssyni en seinna sama ár lést Sveinn úr spænsku
veikinni. Dánarbú Sveins seldi Hlíðarenda Guðjóni Guðlaugssyni
alþingismanni og kaupfélagsstjóra í Strandasýslu sem bjó að
Hlíðarenda ásamt fjölskyldu sinni til dauðadags en á landinu var
íbúðarhús, fjós, hlaða og fleira.
Eftir andlát Guðjóns var það ósk Jóneyjar
Guðmundsdóttur eiginkonu Guðjóns að selja landið
Knattspyrnufélaginu Val fremur en til "… kaupsýslumanna sem sóttust
enn fremur eftir því að eignast Hlíðarenda". Við eigum því Jóneyju
afskaplega mikið að þakka.
Það var á stjórnarfundi 3. apríl 1939 að Ólafur
Sigurðsson þáverandi formaður Vals skýrði frá því að Hlíðarendi
hefði boðist Knattspyrnufélaginu Val til kaups. Á fundi þann 8. maí
1939 var endanlega samþykkt að ganga frá kaupum og var kaupverð
30.000 kr. Skyldi greiða 5000 kr. útborgun en árlegar útborganir
2.700 kr. Á þeim tíma var Hólmgeir Jónsson féhirðir í stjórn Vals
og segir hann frá því í viðtali í Valsblaðinu 1971 að hann hafi
vitað sem var að ekkert fé var til. Ólafur hafi hins vegar haft ráð
við því, sem var að gefa út 50 króna skuldabréf samtals að upphæð
5000 kr. svo sem sjá má á eftirfarandi tilvitnun í Ólaf:
Til að standast fyrstu útborgun, kr.
5.000 höfum við gefið út skuldabréf fyrir upphæðinni, hvert upp á
50 kr., er innleysist á 10 árum og ætluð eru til að hjálpa okkur
yfir erfiðasta hjallann, þar til við höfum tækifæri til sérstakra
fjáraflana. Er það von okkar, að sem flestir félagar og velunnarar
kaupi bréf þessi, ef þeir mega missa af 50 krónum um eins til tíu
ára skeið. Yrði það til hins mesta stuðnings fyrir okkur, en
kaupandinn fær nokkru hærri vexti en í sparisjóði.
Sala bréfanna gekk vel og í
áðurnefndu viðtali við Hólmgeir mundi hann aðeins eftir að hafa
"leyst inn tvö eða þrjú bréf". Aðrir í stjórn félagsins sem stóðu
að kaupunum voru auk Ólafs og Hólmgeirs, Grímar Jónsson, Hrólfur
Benediktsson, Jóhannes Bergsteinsson, Sigurður Ólafsson og Sveinn
Zoëga. Ekki var til fé til framkvæmda og því leigði félagið landið
til Geirs í Hlíð til 5 ára til að létta undir með félaginu, að
undanskildum einum hektara til að nýta undir æfingar, enda
flugvöllurinn mjög farinn að þrengja að æfingasvæðinu sem þá var í
notkun.
Í dag er enginn sem efast um að þetta var mikið
framfaraspor stjórnarinnar árið 1939. En á þeim tíma áttu sér stað
miklar deilur innan félagsins sem utan og var meðal annars skorað á
bæjarstjórn að taka 1000 kr. árlega af félaginu "er færi svo
gálauslega með fé sitt". Það var ekki fyrr en 1944 að þessar
óánægjuraddir þögnuðu þegar Hlíðarendanefnd skilaði um 100 þúsund
króna hagnaði af bílhappdrætti og hlutaveltu.
Það má með sanni segja að markmið Ólafs
Sigurðssonar sem hann lýsir í Valsblaðinu 1941 hafi ræst þegar
horft er yfir Hlíðarendasvæðið í dag, en þar segir m.a.
"Hugsjónir okkar um fullkomnun
staðarins í framtíðinni verða að vera háleitar og miklar. Við
verðum að gera til hans meiri kröfur en nokkurn tíma hafa verið
gerðar hér á landi í þessum efnum, svo miklar, að þær standist
kröfur tímans um næstu 100 ár a.m.k."
Það er skemmtileg saga til um
feikilega framsýni þessarra manna frá fyrstu árunum að Hlíðarenda.
Á þessum árum var heimstyrjöldin síðari í fullum gangi. Tveir ungir
íslenskir arkitektanemar sem höfðu frestað námi í Danmörku vegna
seinni heimsstyrjaldarinnar og flust heim til Íslands tímabundið,
opnuðu arkitektastofu og hófu hönnunarvinnu á Íslandi, en fóru
síðar aftur utan og kláruðu námið að stríði loknu. Þetta voru þeir
Gísli Halldórsson og Sigvaldi Thordarson, sem áttu eftir að hafa
mikil áhrif á íslenska húsagerð og skipulagsmál um langa tíð.
Þessir ungu menn voru fengnir til þess að
skipuleggja Hlíðarenda til framtíðar og er til mjög athyglisverður
uppdráttur sem lýsir framtíðarsýn þessara merku manna. Þetta var
árið 1943 og er uppdrátturinn dagsettur í apríl það ár. Þarna mátti
sjá fullburða leikvang með grasi, áhorfendastúkum og hlaupabraut,
stóran malarvöll, knattspyrnuvöll drengja, utanhúss handboltavöll á
grasi, tennisvelli, íþróttahús, félagsheimili, búningsaðstöðu, íbúð
umsjónarmanns og sundlaug, sem sagt stóra drauma. Þetta var fjórum
árum eftir kaupin á landareigninni og er í fullkomnu samræmi við
fyrr lýsta framtíðarsýn Ólafs Sigurðssonar.
Þetta varð nú ekki að veruleika á þessum tíma og
má finna annan uppdrátt, dagsettan árið 1944, unninn af sömu
arkitektanemum, þar sem verið er að breyta þessum fyrrum útihúsum,
fjósi og hlöðu, í félagsaðstöðu, fundarherbergi og búningsklefa.
Draumsýn og veruleiki er ekki alltaf eitt og hið sama en
nauðsynlegt að láta sig dreyma. Það má hins vegar segja að
draumsýnin hafi að miklu leyti ræst að Hlíðarenda síðar þegar litið
er yfir svæðið eins og það lítur út í dag.
Sem fyrr segir ollu kaupin á landareigninni
nokkrum deilum innan félagsins og ádeilu út í frá. Til allrar
hamingju stóðst félagið öll slík áhlaup, því þessi kaup skópu þá
stöðu sem félagið er í í dag, 80 árum síðar.
Til hamingju Valur með 80 ára afmæli Hlíðarenda
.
F.h. minjanefndar Vals,
Kristján Ásgeirsson og Margrét
Bragadótti