Skólaleikar Vals 2025

Fjórtándu Skólaleikar Vals fóru fram að Hlíðarenda þann 19.mars 2025. Á leikunum etja krakkar á miðstigi hverfisskóla félagsins kappi í hinum ýmsu leikjum og þrautum með leikgleðina að leiðarljósi. Óhætt er að segja að stemmningin hafi verið rafmögnuð í ár þegar leikarnir fóru af stað í N1-höllinni.

Leikarnir byrjuðu með gríðarlega jafnri keppni í fyrstu grein leikanna, skotbolta. Þar var þó Hlíðaskóli sem bar sigur úr bítum og vann flestar viðureignir sínar. Háteigsskóli var þar rétt á eftir, og Austurbæjarskóli einungis tveimur stigum á eftir þeim. 

Hlíðaskóli hélt siglingunni áfram og hafði betur þrjár umferðir af sex í körfuboltakeppninni. Einu sinni deildu Hlíðaskóli og Háteigsskóli stigum en Háteigsskóli vann tvær umferðir. Austurbæjarskóli var þó ekki langt á eftir og tók annað sætið í fjórum umferðum.

Í bodsía keppninni hafði Hlíðaskóli betur í tveimur viðureignum og Háteigsskóli einni.

Næsta grein var boðhlaup þar sem Austurbæjarskóli og Hlíðaskóli sigruðu þrjár umferðir  hvor. Hlíðaskóli hafði þó betur í greininni í heild sinni en Háteigsskóli var rétt á eftir hinum skólunum tveimur. 

Seinasta grein leikanna var reipi tog. Hlíðaskóli fór sigurstranglegur inn í greinina og tókst að sigra fimm viðureignir af níu í heild sinni. Þar á eftir var Háteigsskóli sem sigraði þrjár viðureignir og Austurbæjar skóli tók eina.

Það var því Hlíðaskóli sem bar sigur úr bítum á Skólaleikum Vals árið 2025 og var þetta níundi sigur skólans. Þá fékk Háteigsskóli einnig viðurkenningu fyrir besta stuðningsmannaliðið þó allir skólarnir hafi mætt með sterkt bakland.

Knattspyrnufélagið Valur vill þakka öllum þeim sem komu að leikunum og fyrir samveruna á þessum frábæra degi.

Áfram Valur!

 

Sigurvegarar skólaleikanna:

Hlíðaskóli: 2010, 2011, 2012, 2015, 2018, 2019, 2022, 2023, 2025

Austubæjarskóli: 2013, 2014, 2016

Háteigsskóli: 2009, 2017