Brjáluð spenna – pistill
Það er ótrúlegt álag á taugarnar að fylgjast með sumum handboltaleikjum. Föstudagsleikur Valsstelpna gegn Stjörnunni var einn af þessum taugatitrurum. Þvílíkur leikur. Tvær framlengingar til að fá hrein úrslit. Það var eins gott að sigurinn féll okkar megin. Við erum hársbreidd frá því að tryggja okkur Íslandsmeistaratitilinn, en það er ljóst að stelpurnar klára þetta verkefni ekki hjálparlaust. Við stuðningsmennirnir verðum að fjölmenna á þá leiki sem eftir eru og láta vel í okkur heyra.
Fyrir föstudagsleikinn höfðu nokkrir stuðningsmenn blásið í lúðra og stofnað hópinn "Team Hrabba Skúla" til að heiðra drottninguna okkar sem hefur líst því yfir að hún muni hætta í boltanum þegar keppnistímabilinu lýkur. Augljóslega hlýddi fjöldi manns kallinu og þeir fengu fullt fyrir peninginn. Gæði handboltans hafa oft verið meiri heldur en í þessum leik en spennan var í hæstu hæðum. En þeir sem mættu urðu t.d. vitni að þessu:
- Begga varði samtals 23 skot í leiknum eftir að hafa farið fremur hægt af stað (var með 8 varin í fyrri hálfleik).
- Anna Úrsúla átti fínan leik. Afburðamaður í vörn eins og ávallt en líka frábær í sókninni og var markahæst með 6 mörk og skoraði mjög mikilvæg mörk þegar sjálfstraust Stjörnumarkvarðarins var sem mest.
- Karólína skoraði jafnmikið og Anna Úrsúla. Þar á meðal a.m.k. tvö mörk úr hraðaupphlaupi. Karólína var með góða nýtingu og var mjög yfirveguð ein á móti markmanni.
- Morgan átti að mínu mati slappan leik í Garðabænum og fór svosem ekki allt of vel af stað í þessum leik. En með tveimur mörkum í röð snemma í seinni hálfleik þá kom hún okkur yfir í fyrsta skipti frá því á fyrstu mínútu. Þetta voru mjög mikilvæg mörk á mikilvægum tímapunkti leiksins. En til þeirra stofnað með góðu gegnumbroti sem við viljum sjá í meiri mæli frá Morgan.
- Heiða var mjög vaxandi í leiknum. Til að byrja með fannst mér hún vera fremur værukær í vörninni en hún óx gríðarlega eftir því sem leið á leikinn og stóð mikil ógn af henni í sókninni auk þess sem hún lokaði algjörlega á Ester í liði Stjörnunnar.
- Hrafnhildur skoraði ekki mark en átti engu að síður gott framlag í leiknum, bæði í vörn og sókn. Í nokkur skipti rifu Valsstelpur gat á Stjörnuvörnina þannig að Hrabba gaf ýmist á bæði Önnu Úrsúlu og Heiðu sem fengu beina hraðbraut inn á teig.
- Ég hélt að Kristín væri búin að tæma tankinn í venjulegum leiktíma en hún var ekki á því að gefast upp og skoraði mörk í báðum framlengingum. Þar á meðal sigurmark leiksins. Reynsla þeirra Hrafnhildar og Kristínar skiptir okkur gríðarmiklu máli. Þær kunna það sem þarf til að klára stórleiki og mót.
- En fyrirmyndaratvikið í leiknum á Rebekka sem hljóp uppi fjarkann í Stjörnuliðinu eftir að við glötuðum boltanum klaufalega í sókninni. Atvikið minnti mig á varnarvinnu Alexander Petersson á Olympíuleikunum í Peking. Vel gert Rebekka, þú hefur unnið þér inn 10 rokkstig!
Næsti leikur stelpnanna er á morgun sunnudaginn 11. maí 2014 gegn Stjörnunni kl. 16 í Mýrinni. Ég minni á að 103 ára afmæli Vals er á morgun og við skulum fylkja liði í Garðabæinn og leggja Stjörnustelpur að velli. Það er ekki til betri leið til að halda upp á daginn.
Áfram Valur!