Valsblaðið komið út
Valsblaðið er ómetanleg heimild um starfsemi félagsins og gefur innsýn í helstu málefni og áherslur Vals á hverjum tíma, tíðarandann, sigra utan vallar sem innan, framkvæmdir og félagsstarf og þar er einnig minnst þeirra Valsara sem hafa fallið frá á árinu.
Í blaðinu eru viðtöl við marga unga og efnilega iðkendur og ítarleg viðtöl t.d. við E.Börk Edvardsson fyrrverandi formann knattspyrnudeildar, Málfríði Ernu Sigurðardóttur sem lagði knattspyrnuskóla á hilluna í haust eftir einstaklega farsælan feril, Hildigunni Einarsdóttur sem fer yfir glæstan handboltaferil, Vigni Stefánsson sem lagði handboltaskóna á hilluna í vor sem Evrópubikarmeistari og Frank Aron Booker sem fetar í fótspor föður síns í sigursælu körfuboltaliði Vals.
Fyrsta Valsblaðið kom út árið 1939 og frá árinu 1983 hefur það komið út árlega og nú er 76. tölublaðið komið út undir styrkri ritstjórn Guðna Olgeirssonar en hann hefur ritstýrt Valsblaðinu í rúma tvo áratugi eða frá árinu 2003.
Hægt er að nálgast prentaða útgáfu blaðsins í Valsheimilinu og einnig vefútgáfu með því að smella hér.