Louisa Christina er nýr íþróttafulltrúi Vals

 

Louisa Christina hefur verið ráðinn íþróttafulltrúi Vals og tekur hún formlega við starfi íþróttafulltrúa nú um mánaðarmótin þegar Gunnar Örn heldur til nýrra verkefna. 

Louisa er með BSc gráðu í Íþrótta- og heilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík ásamt víðtækri reynslu af þjálfun og starfsemi íþróttafélaga og starfaði m.a. sem íþrótta- og verkefnastjóri hjá HK til ársins 2023.

Þá er Louisa vel kunnug starfsemi Vals, sem foreldri, stuðningsmaður og sjálfboðaliði undanfarin ár.

Louisa íþróttafulltrúi Vals 2

"Ég er afar þakklát og spennt að vera mætt á Hlíðarenda. 

Það hefur lengi blundað í mér vilji til þess að starfa fyrir Val okkar frábæra félag. Sem foreldri, áhorfandi og sem sjálfboðaliði á Hlíðarenda hef ég verið svo lánsöm að kynnast frábærum og drífandi einstaklingum, metnaði og samheldni sem um er talað.

Á loka ári mínu í íþrótta- og heilsufræðum frá HR, sem hluta af verknámi, fylgdi ég eftirminnilega eftir nú fráfarandi íþróttafulltrúa Vals. Var það mikill skóli og frábært veganesti fyrir komandi verkefni.

Ég tek við afar góðu búi og hlakka til að taka þátt í áframhaldandi verkefnum og framþróun félagsins með stefnu og gildi Vals að leiðarljósi.

Áfram, Hærra"!


Knattspyrnufélagið Valur vill koma sérstökum þökkum til fráfarandi íþróttafulltrúa fyrir vel unnin störf undanfarin 8 ár, Gunnar skilur eftir sig öflugt og gott starf. Jafnframt óskum við Gunnari góðs gengis í nýjum verkefnum, megi þau vera jafn farsæl og hér.

 

"Gunnar Örn Arnarsson sem allir Valsarar þekkja sem íþróttafulltrúann á skrifstofunni að Hlíðarenda hefur ákveðið að venda sínu kvæði í kross og í dag skilaði hann sínum síðasta vinnudegi eftir rúmlega átta ára starf. Það verður mikill söknuður af Gunnari sem er hvers manns hugljúfi og býr yfir öllum þeim kostum sem nauðsynlegir eru í annasamt starf íþróttafulltrúa". 

Fh. samstarfsfólks, - Eysteinn Hauksson.

 

Kveðja fráfarandi íþróttafulltrúa

"Fyrst og síðast langar mig að einfaldlega að þakka fyrir mig - Það hefur verið sannur heiður að fá að þjóna þessu félagi síðastliðin átta ár og ég hef notið hverrar mínútu. 

Það er kraftur í fólkinu hér að Hlíðarenda og hér hef ég kynnst aragrúa af frábæru fólki og eignast dásamlega vini. Það er hálf súrrealískt  en á sama tíma ljúft að hugsa til þess að ég hafi fylgt megin þorra iðkenda félagsins frá því þeir hófu íþróttaferilinn sinn hjá félaginu og fylgst með þeim vaxa úr grasi.

Ég kveð því með gleði í hjarta og fullur af bjartsýni og veit að starfið í Val mun halda áfram að blómstra í höndum fólksins sem stendur að félaginu, á þar við um starfsfólk, þjálfara, sjálfboðaliða, foreldra og ekki síst iðkendur Vals".