N1 höllin og N1 völlurinn að Hlíðarenda
Knattspyrnufélagið Valur og N1 hafa gert með sér samstarfssamning til næstu 5 ára. Íþróttahúsið og knattspyrnuvöllur félagsins munu bera nöfnin N1 höllin og N1 völlurinn. Í tengslum við samstarfssamninginn mun Valur setja á fót knattspyrnumót fyrir stúlkur á aldrinum 10-12 ára og verður N1 aðal bakhjarl mótsins.
"Við í N1 erum gríðarlega ánægð með að vera bakhjarlar Vals til næstu 5 ára þar sem rauði liturinn verður allsráðandi. Félagið er þekkt fyrir að hlúa vel að yngri iðkendum þegar kemur að aðbúnaði og þjálfun. Nú bætist við N1 knattspyrnumót fyrir stúlkur, sem við erum spennt að fylgjast með. Umgjörðin á Hlíðarenda verður til fyrirmyndar, bæði sú sem snýr aða íþróttafólki sem og stuðningsfólki og íbúum í nágrenninu," segir Ýmir Örn Finnbogason framkvæmdastjóri N1.
"Valur mun áfram leitast við að vinna metnaðarfullt starf hjá félaginu og reyna að skipa íþróttafólki sínu í fremstu röð á hverjum tíma. Valur hefur jafnrétti kynja að leiðarljósi í sinni starfsemi þar sem unnið er eftir jafnréttisstefnu félagsins. Þar að auki fylgir Valur umhverfis- og sjálfbærnistefnu sem félagið hefur sett sér og rýmar vel við gildi N1," segir Hörður Gunnarsson formaður Vals.
"Þessi samningur markar ákveðin tímamót fyrir okkur hjá N1. Samningur um stúlknamót af þessari stærðargráðu, hjá öflugu félagi eins og Val, er stórt skref fyrir okkur og við hlökkum mjög til samstarfsins. Samningurinn er til marks um áherslu beggja félaga á kynjajafnrétti í þeirra störfum og við hjá N1 erum stolt af því að geta áfram stutt vel við yngstu íþróttaiðkendur landsins," segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, forstöðumaður markaðssviðs N1.