Arna Sif Ásgrímsdóttir er íþróttamaður Vals 2023
Val á íþróttamanni Vals árið 2023 var kunngjört núna í hádeginu að viðstöddu margmenni í veislusölum félagsins að Hlíðarenda.
Sú hefð að velja íþróttamann Vals hófst árið 1992 eða fyrir 31 ári þegar Halldór Einarsson gaf bikar og kom hefðinni á þegar og varð Valdimar Grímsson fyrir valinu. Til þessa hafa 12 knattspyrnumenn hlotið titilinn, 13 handknattleiksmenn og 3 körfuknattleiksmenn. Sautján sinnum hefur leikmaður karlaliðs verið valinn íþróttamaður Vals og fjórtán sinnum leikmaður kvennaliðs. Kynjaskiptingin er því nokkuð jöfn þegar kemur að vali á íþróttamanni Vals. Vert er að taka fram að sami leikmaður hefur í nokkrum tilfellum hlotið útnefningu oftar en einu sinni.
Kjör á íþróttamanni Vals fer að venju fram
með þeim hætti að sjö manna dómnefnd kemur saman og metur
frammistöðu þeirra leikmanna sem skarað hafa framúr á árinu.
Nefndin horfir til nokkurra þátta við val sitt og síðan er kosið um
það innan nefndarinnar hver muni hljóta sæmdarheitið íþróttamaður
Vals. Í nefndinni eiga sæti formenn allra deilda, sitjandi formaður
Vals auk tveggja formanna þar á undan sem og Halldór
Einarsson.
Eftir góðar umræður var nefndin samstíga í vali sínu á
íþróttamanni Vals fyrir árið 2023 en eins og alltaf koma nokkrir
leikmenn til greina enda stóðu meistaraflokkar félagsins sig vel á
árinu. Árið var til að mynda sögulegt vegna góðs gengis kvennaliða
félagsins því liðin fögnuðu Íslandsmeistaratitli í öllum greinum.
Þetta góða gengi kvennaliða Vals er jöfnun á sama árangri frá árinu
2019.
Íþróttamaður Vals varð Íslandsmeistari í þriðja sinn á árinu, ásamt því að vera valinn besti leikmaður Íslandsmótsins af sérfræðingum Bestu markanna á Stöð 2 sport sem og hjá Heimavellinum.
Íþróttamaður Vals 2023 er þekktur fyrir að sýna ávalt góða og fágaða framkomu hvort sem er innan eða utan vallar. Íþróttamaður Vals 2023 er Arna Sif Ásgrímsdóttir leikmaður meistaraflokks kvenna í knattspyrnu.
Arna Sif átti ekki heimangengt að Hlíðarenda í dag þar sem hún er stödd á heimahögum sínum norður á Akureyri þar sem hún dvelur hjá fjölskyldunni sinni yfir hátíðirnar. Hún var að vonum ánægð með sæmdarheitið þegar við náðum tali af henni skömmu eftir að athöfninni lauk: "Ég er gríðarlega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Það er mikill heiður að vera valin íþróttamaður ársins hjá félagi sem er í hæsta gæðaflokki í öllum greinum. Fyrst og fremst vil ég þakka fyrir mig og um leið þakka liðsfélögunum mínum og öllum Völsurum fyrir frábært ár - Við höldum áfram, áfram hærra!"
Á meðfylgjandi mynd má sjá Hörð Gunnarsson, formann félagsins ásamt Málfríði Önnu Eiríksdóttur sem veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Örnu Sifjar sem sést á tölvuskjánum í bakgrunni.