Mörg ný andlit í stjórn Knattspyrnudeildar Vals
Haustfundur Knattspyrnudeildar Vals fór fram að Hlíðarenda í gær og var eitt mál á dagskrá, að kjósa nýja stjórn deildarinnar. Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður stýrði fundinum og var Börkur Edvardsson kjörinn formaður deildarinnar en hann var einn í framboði.
Mikið af nýjum andlitum eru að koma inn í stjórnina að þessu sinni en hana skipa auk Barkar; Björn Steinar Jónsson, Hugrún Gréta Sigurðardóttir, Jón Höskuldsson, Leon Pétursson, Sigurður Kristinn Pálsson og Styrmir Þór Bragason.
Varamenn voru kosnir; Baldur Þórólfsson, Bragi G. Bragason, Breki Logason, Davor Purusic og Hilmar Hilmarsson.
Björn Steinar, Leon, Sigurður Kristinn, Styrmir Þór, Breki, Baldur og Hilmar eru allir að koma nýir inn í stjórnina.
"Ég þakka það traust sem mér er sýnt enn eina ferðina til þess að stýra þeirri öflugu deild sem Knattspyrnudeild Vals er. Ég hef verið hér lengi og veit hvaða metnað og dugnað þarf til þess að ná árangri. Góður árangur og öflug stjórn er eitthvað sem helst í hendur og ég er í engum vafa um að þessi hópur muni setja allan sinn metnað í að halda okkur áfram í hópi þeirra bestu. Það eru stór verkefni framundan hjá meistaraflokkum karla og kvenna en bæði lið taka þátt í Evrópukeppnum. Ég hrikalega spenntur að takast á við þessi verkefni með þessu öfluga fólki," segir Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar.
"Við erum á fullu þessa dagana að skoða samningamálin hjá okkur og vonandi getum við kynnt nýja leikmenn bæði karla og kvenna megin fljótlega."