Alexander Petersson að Hlíðarenda
Alexander Petersson hefur skrifað undir eins árs samning
við Val en hann lék síðast með MT Melsungen í Þýskalandi áður en
hann tók sér svo árs frí frá handbolta.
Alexander, sem varð á dögunum 43 ára, þarf vart að kynna en
hann er löngu orðinn einn dáðasti íþróttamaður
þjóðarinnar.
Alexander langar að ljúka ferlinum á Íslandi og er það
heiður fyrir okkur Valsmenn að hann hafi valið félagið okkar sem
sinn síðasta áfangastað á glæsilegum ferli. Hann á að baki 186
landsleiki og var t.a.m. kjörinn íþróttamaður ársins árið 2010 og
var lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann bæði silfur á
Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaun á EM í Austurríki
2010.
Síðast þegar Alexander spilaði hérlendis var hann valinn
besti sóknarmaður Íslandsmótsins árið 2003 þar sem hann spilaði með
Gróttu/KR.
Alexender er ekki ókunnugur Hlíðarenda en kona hans Eivor
Pála Blöndal lék með Val á sínum tíma og á einnig að baki 13
landsleiki fyrir Íslands hönd. Það þarf ekki að fara mörgum orðum
um það hversu mikill hvalreki það er fyrir Val að fá Alexander og
hans fjölskyldu að Hlíðarenda og bíðum við spennt eftir að fá þau
heim en þau hafa verið með annan fótinn í Hlíðunum síðustu
ár.
Áfram hærra!