Valur Lengjubikarmeistari karla 2023
Valur varð í gær Lengjubikarmeistari í knattspyrnu eftir sigur á KA-mönnum. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem liðin skildu jöfn 1-1 eftir venjulegan leiktíma.
Staðan var markalaus í hálfleik en undir miðbik síðari hálfleiks fengu Norðanmenn vítaspyrnu sem Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr. Valsmenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og herjuðu á mark KA það sem eftir lifði leiks. Birkir Már Sævarsson kom að lokum boltanum í netið þegar hann fylgdi á eftir föstu skoti Adams Ægis Pálssonar sem Steinþór í marki KA réði ekki við.
Það þurfti því vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara. Frederik Schram og Steinþór í marki KA vörðu fyrstu spyrnurnar frá Hallgrími Mar og Aroni Jóhannssyni. Valsmenn skoruðu úr næstu fjórum spyrnum sínum en Hrannar Björn Steingrímsson leikmaður KA skaut boltanum yfir í lokaspyrnu KA.
Valur fór því með sigur af hólmi og er Lengjubikarmeistari árið 2023.