Merki Vals endurnýjað
Á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um að nútímavæða merki Vals. Núverandi merki félagsins hefur aðallega haft þann ókost að Valurinn í merkinu hefur prentast óskýrt á búninga félagsins. Eins hefur merkið verið óskýrt á tölvutæku formi og á samfélagsmiðlum. Þá hafa líka mismunandi útgáfur á merkinu verið í notkun og vantað ákveðna stefnumörkun í notkun á því. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um breytingar og ný merki verið hönnuð, en hingað til hefur ekki náðst sátt um breytingar. Það er óhjákvæmilegt að breytingar á merki Vals skapi mismunandi skoðanir og álit.
Ég er hinsvegar á því að merkið, sem Valur er að kynna núna, muni falla flestum Valsmönnum vel í geð. Merkið sem verður merki Vals í framtíðinni er í raun endurunnið merki félagsins frá árinu 1934. Það hefur verið á legsteini Jóns Karels Kristbjörnssonar í Hólavallakirkjugarði frá því að það var vígt á minnismerki hans í desember 1934. Frá því ári hafa allir leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu signað merkið, því þeir hafa ávallt vottað Karel virðingu sína fyrir fyrsta leik í Íslandsmóti, en Karel lést sviplega eftir samstuð í úrslitaleik með Val árið 1933.
Endurnýjað merki Vals er því búið að vera hluti af okkar ástkæra félagi í um 90 ár, án þess að það hafi verið notað með formlegum hætti á búningum eða fánum. Merkið hefur þó verið sýnilegt og má minnast á að eftirsteypa af merkinu er á vegg í Fjósinu og í fundarherbergi að Hlíðarenda, en Þorsteinn Haraldsson á heiðurinn af því framtaki. Þetta endurnýjaða merki hentar afskaplega vel í nútíma umhverfi. Fálkinn í merki Vals er nú mjög skýr og útlínur hans einfaldar.Hann er ákveðinn á svip, vænghaf hans er V-laga og klær hans með gott grip á knettinum.
Hilmar Þorsteinn Hilmarsson, grafískur hönnuður hefur lagt ómælda vinnu í að koma hugmyndinni á stafrænt form, en hann hefur sýnt mikið frumkvæði í að koma merki félagsins og notkun þess á fagmannlegri stað á undanförnum árum. Naut hann aðstoðar frá Jóni Ágústi Pálmasyni í þessu verkefni og færi ég þeim bestu þakkir fyrir þeirra óeigingjarna framlag til Vals. Í bók sinni Minningarmörk í Hólavallagarði, segir Björn Th. Björnsson fræðimaður um merkið á legsteini Karels: "Merkið sjálft er frábært steinhögg, en þar hélt Ársæll steinsmiður Magnússon um meitil og hamar."
Markmiðið með endurnýjun á merki okkar Valsara er að koma því smátt og smátt í notkun. Fyrst um sinn munum við aðallega sjá það í fjölmiðlum, tölvuskjám og á búningum félagsins. Við munum ekki fara í kostnaðarsamar breytingar á merkinu allstaðar að Hlíðarenda strax, heldur gera það jafnt og þétt á komandi misserum. Núverandi merki hefur þjónað okkur vel og mun sjást áfram í einhverjum mæli, en smátt og smátt mun endurnýjað merki Vals taka við í umhverfinu að Hlíðarenda.
Það er von mín að allir Valsarar taki endurnýjuðu merki okkar vel og hefji það sem fyrr, hátt á loft. Áfram hærra - Áfram Valur!
Lárus Bl. Sigurðsson - Formaður Vals