"Stór dagur fyrir Val", Dóra María, Mist, Elín Metta og Laufey Björnsdóttir skrifa undir tveggja ára samninga við knattspyrnudeild Vals

Dóra María Lárusdóttir, Mist Edvardsdóttir, Elín Metta Jensen og Laufey Björnsdóttir hafa allar skrifað undir tveggja ára samninga við knattspyrnudeild Vals.
Allar eru þær lykilleikmenn í meistaraflokki kvenna og því eru þetta frábærar fréttir fyrir kvennaknattspyrnuna í Val.
Dóru Maríu Lárusdóttur þarf vart að kynna fyrir Völsurum. Dóra er 31 árs, hefur spilað 247 leiki í mfl. og 111 mörk.
Fyrsti meistaraflokks leikurinn árið 2001. A- Landsleikirnir eru orðnir 113 talsins og 18 mörk í þeim. Dóra er einfaldlega Valsari út í eitt
og er jafnframt gríðarlega góð knattspyrnukona. Hennar reynsla mun vega þungt á komandi tímabilum.

Mist Edvardsdóttir er 26 ára og hefur spilað 109 leiki fyrir Val og skorað í þeim 11 mörk. Mist á jafnframt 13 A-landsleiki að baki og 1 mark í þeim.
Valsarar þekkja sögu Mistar, hún er baráttujaxl, mikill Valsari og er afskaplega traustur leikmaður.

Elín Metta Jensen er 21 árs markaskorari af guðs náð. 64 mörk í 98 meistaraflokksleikjum segja allt um þessa uppöldu Vals markakonu.
Elín Metta er frábær knattspyrnukona og á einfaldlega heima í rauðri Valstreyju. Elín Metta hefur spilað 21 A-landsleik og skorað 4 mörk í þeim.

Laufey Björnsdóttir er 27 ára miðjumaður sem sannaði mikilvægi sitt með Valsliðinu á síðustu leiktíð þegar hún var lykilmaður á miðju liðsins.
Laufey á 77 leiki að baki fyrir Val og í þeim hefur hún skorað 5 mörk. Laufey hefur spilað með U-15 og 17 landsliðum Íslands.

Það er sannarlega gleðilefni að þessar frábæru knattspyrnukonur hafi ákveðið að vera áfram í Val.