"Hjarta mitt slær fyrir mfl.kvenna", Pála Marie Einarsdóttir skrifar undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Vals.
Pála Marie Einarsdóttir, varnarkonan þrautreynda, hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Vals. Pála hefur spilað með Valskonum á yfirstandandi undirbúningstímabili og sýnt að að hún er afar öflugur leikmaður.
Pála Marie er fædd árið 1984 og hóf sinn mfl.feril með Haukum
árið 2000. Pála kom til Vals árið 2002 og lék með félaginu
allt til ársins 2012, snéri aftur til Vals um mitt tímabil 2013 og
svo aftur undir lok tímabilsins 2014. Alls hefur Pála Marie spilað
171 leik fyrir Val í efstu deild og skorað 3 mörk. Pála á fjölda
landsleikja að baki fyrir U17,19,21 og 5 A-landsleiki.
Með endurkomu Pálu Marie bætist gríðarleg reynsla og mikil gæði
við afar lofandi hóp meistaraflokks kvenna í
knattspyrnu.
Í tilefni af samningnum ræddi Valur.is við Pálu Marie:
"Andrúmsloftið í kringum liðið er mjög gott og mikill metnaður
hjá öllum í kringum félagið að ná góðum árangri í sumar. Félagið
hefur líka verið að sækja leikmenn sem þekkja það að spila með Val
og einnig aðra sem þekkja sigurtilfinninguna vel. Þjálfarateymið er
líka gott og þeir setja miklar kröfur á okkur leikmennina. Það er
því margt sem heillar við að vera að spila með liðinu
núna.
Mér finnst ég í raun aldrei hafa farið enda mætt á æfingar við
hvert tækifæri í pásunni sem ég hef verið í. Hjartað mitt slær
fyrir mfl kvenna og hefur gert það síðan ég kom í félagið 2002. Mér
finnst það forréttindi að mæta á æfingar og gera það sem ég elska,
að spila fótbolta með frábærum knattspyrnukonum.
Ég er hægt og rólega að komast í flott stand. Það tekur að
sjálfsögðu smá tíma að komast í sitt besta form þegar maður hefur
verið í pásu en ég finn að ég er að ráða vel við álagið sem ég er
mjög ánægð með. Ef allt gengur að óskum og ég helst meiðslalaus
ætti að ég að vera í mínu besta formi í mörg ár í sumar. Ég er með
miklar væntingar fyrir tímabilinu. Það borgar sig að spara
yfirlýsingarnar enda eru mörg góð lið í deildinni sem hafa verið að
taka titlana síðastu ár. Mín skoðun er samt sú að Valur er félag
sem á alltaf að vera að berjast á toppnum og ég tel að við séum með
lið sem getur gert það."