Bikarmeistarar 2016

Valsmenn urðu um helgina bikarmeistarar karla í níunda sinn þegar lærisveinar Óskars Bjarna Óskarssonar lögðu Gróttumenn 25-23 í úrslitaleik keppninnar laugardaginn 27. febrúar. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Valsmenn fóru með tveggja marka forystu til búningsherbergja.

 

Valur hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu mest fimm marka forystu. Gróttumenn gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í tvö mörk þegar lítið var eftir. Lengra komust þeir hins vegar ekki og Valur fagnaði sigri.

 

Daginn áður unnu Valsmenn frækinn sigur á Haukum í undanúrslitum 24-22 þar sem Hlynur Morthens fór á kostum og varði 20 skot. Ómar Ingi Magnússon fór fyrir sóknarleik liðsins og skoraði 10 mörk í öllum regnbogans litum.

 

Mörk Vals gegn Gróttu: Sveinn Aron Sveinsson 6, Geir Guðmundsson 4, Vignir Stefánsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Ómar Ingi Magnússon 3, Orri Freyr Gíslason 2, Elvar Friðriksson 2.

Varin skot gegn Gróttu:Hlynur Morthens 12

 

Mörk Vals gegn Haukum: Ómar Ingi Magnússon 10, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Elvar Friðriksson 3, Geir Guðmundsson 2, Sveinn Aron Sveinsson 2, Orri Freyr Gíslason 1, Alexander Örn Júlíusson 1, Atli Már Báruson 1.

Varin skot gegn Haukum:Hlynur Morthens 20

 

Á sunnudeginum léku yngriflokkar til úrslita í Laugardalshöll þar sem 3. flokkur Vals mætti ÍR-ingum og 2. flokkur Fram. Strákarnir í þriðja flokk sáu aldrei til sólar gegn sterku liði ÍR og máttu á endanum þola 33-26 tap.

 

Leikur Vals og Fram í 2. flokk var hin mest skemmtun og sýndu bæði lið frábær tilþrif. Varnarleikur Vals var þó á endum það sem skildi liðin að og fóru Valsmenn með sigur af hólmi 25 - 22. Strákarnir voru vel af sigrinum komnir og var fögnuðurinn í lok leiks ósvikinn.