Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson taka við Val - Bjarni Ólafur áfram á Hlíðarenda.
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson taka við Val - Bjarni Ólafur áfram á Hlíðarenda
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson taka að sér þjálfun meistaraflokks karla í knattspyrnu til næstu 3ja ára.
Ólafur hefur verið afar sigursæll þjálfari sem hefur hampað Íslandsmeistaratitli þrisvar sinnum m.a. með Val árið 1987. Hann hefur einnig verið landsliðsþjálfari Íslands og gaf mörgum af núverandi leikmönnum sín fyrstu tækifæri með A- landsliði Íslands.
"Það er spennandi áskorun að þjálfa Val og get ég ekki beðið eftir að byrja vinna með strákunum. Í mínum huga á Valur að keppa til sigurs í öllum mótum sem liðið tekur þátt í, alltaf."
Sigurbjörn Hreiðarsson þarf ekki að kynna fyrir Valsmönnum enda lifandi goðsögn að Hlíðarenda. Sigurbjörn lék yfir 300 leiki með Val og varð fyrst bikarmeistari með liðinu árið 1992 og svo aftur 2005 og Íslandsmeistari árið 2007. Sigurbjörn þjálfaði með Ólafi Jóhannessyni hjá Haukum árið 2012 og tók síðan alfarið við liðinu 2013 og stýrði liðinu með ágætisárangri.
"Mjög spennandi og jafnframt krefjandi verkefni að vera kominn aftur á Hlíðarenda. Hef haldið hollri fjarlægð síðustu ár og hungrar að taka slaginn aftur í Val með Óla og reyna virkja vel þá Valsmenn sem eru út um allt. Það er mikið verk fyrir höndum og það þarf þolinmæði. Ef stuðningsmenn, stjórn, leikmenn og þjálfarar ganga allir í takt og virka sem ein heild getum við komið Val aftur í toppbaráttu, þar sem við teljum okkur eiga heima"
Salih Heimir Porcha í Val
Salih Heimir Porsha tekur við hinum fjölmenna 2.flokki karla. Hann er reyndur þjálfari en lék einnig með Val á árum áður og hampaði m.a. bikarmeistaratitli með liðinu árið 1992. Í heildina lék Salih Heimir 69 leiki fyrir Val í efstu deild.
"Ég bind miklar vonir við 2 flokk karla. Ég mun gera mitt til að ala liðið upp til að taka við keflinu á næstu árum."
Matthías Guðmundsson í Val að nýju
Matthías Guðmundsson tekur við 3.flokki karla hjá Val. Hann var aðstoðarþjálfari hjá Haukum á nýliðnu tímabili og starfaði þar með Sigurbirni Hreiðarssyni. Matthías er uppalinn Valsmaður og varð bikarmeistari með liðinu árið 2005. Hann lék alls 215 leiki með Val og skoraði alls 41 mark ásamt því að spila 4 landsleiki fyrir Ísland. Hann varð síðar Íslandsmeistari með FH.
"Mér líður einfaldlega langbest í Val og á Hlíðarenda. Það eru spennandi tímar framundan og ég sé ekkert nema tækifæri. "
Náið samstarf flokkanna
Meistaraflokkur og 2. og 3. flokkar karla eiga að vinna náið saman til framtíðar og tryggja þannig stöðu Vals sem eins helsta afrekssfélag landsins.
Bjarni Ólafur Eiríksson áfram í Val
Valur hefur jafnframt gert nýjan tveggja ára samning við Bjarna Ólaf Eiríksson. Hann er lykilmaður í liðinu og lék alla 22 leiki liðsins í sumar. Bjarni hefur verið mikill styrkur fyrir Valsliðið undanfarin ár og hampaði m.a. Íslandsmeistaratitli með liðinu árið 2007. Valsmenn eru stoltir af þessum frábæra liðsmanni og gleðiefni að hann verði áfram með liðinu.
"Ég ætla að taka þátt í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru og get ekki beðið eftir að byrja að æfa hjá Óla og Bjössa. Eins líst mér rosalega vel á þá stefnu sem mér hefur verið kynnt af stjórn og samstarfi við 2. og 3. flokk"
Valur í forystuhlutverki
Valur er eitt sigursælasta íþróttafélag landsins og það sigursælasta þegar tekið er tillit til Íslands- og bikarmeistaratitla í meistaraflokki karla og kvenna í þremur vinsælustu íþróttagreinum landsins eða handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu. Á undanförnum áratugum hefur félagið einbeitt sér að starfi í þessum þremur íþróttagreinum með öflugu starfi. Valur er félag með ríka hefð fyrir sigurvilja, aga, dugnað og heilbrigði. Að Hlíðarenda vinna allir að sama marki, þ.e. að halda merki Vals hátt á lofti um ókomna framtíð með einkunnarorð séra Friðriks Friðrikssonar að leiðarljósi: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði. Félagið býður upp á góða aðstöðu til íþróttaiðkunar og afþreyingar sem á eftir að eflast enn frekar á næstu árum með byggingu nýrra íþróttamannvirkja í samræmi við hugmyndir Vals og Reykjavíkurborgar. . Þegar þeim framkvæmdum verður lokið verður aðstaðan ein hin glæsilegasta á Norðurlöndunum.
Áfram Valur