Helena Ólafsdóttir ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna

Helena Ólafsdóttir er tekin við liði meistaraflokks Vals í knattspyrnu.  Helena tekur við liðinu af Gunnari Borgþórssyni sem stýrt hefur liðinu undanfarin tvö ár. Helena er einn reyndasti þjálfari landsins og þjálfaði hún m.a. lið Vals á árunum 2002 og 2003. Helena hefur jafnframt verið þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og því engin aukvissi í sínu fagi.

Það eru bundnar miklar vonir við komu Helenu og ljóst að hún tekur við góðu búi af Gunnari. Hið unga kvennalið Vals endaði í 4.sæti í Pepsídeild kvenna í ár og spilaði til úrslita í bikarkeppni KSÍ. Kvennalið Vals hefur undanfarin ár unnið alla þá titla sem í boði eru í kvennaboltanum og ljóst að með ráðningu Helenu er stefnt að því að fá þá titla aftur á Hlíðarenda.