Darri Freyr Atlason ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals
Körfuknattleiksdeild Vals gekk í dag frá ráðningu Darra Freys Atlasonar sem þjálfara kvennaliðs félagsins og nær samningurinn til næstu tveggja tímabila. Darri Freyr hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu af þjálfun en hann hefur sl. 10 ár komið að yngri flokka starfi KR. Hann þjálfaði auk þess kvennalið KR tímabilið 2015 til 2016 og var í kjölfarið valinn besti þjálfari 1. deildar af þjálfurum og leikmönnum deildarinnar.
Körfuknattleiksdeild Vals setur markið hátt og er undirbúningur þegar hafinn að koma liðinu aftur í úrslitakeppnina þar sem liðið á heima. Flestir leikmenn liðisns eiga eitt ár eftir af sínum samningi við félagið en stefnan er að styrkja hópinn enn frekar fyrir komandi átök.
Aðspurður um komandi tímabil og framtíðina sagði Darri: "Ég er spenntur fyrir verkefninu. Valur er stórt félag með langa sögu og hefur sýnt metnað í kvennakörfunni sem er til fyrirmyndar. Aðstaðan á Hlíðarenda er frábær og leikmannhópurinn er sterkur - stelpur með umtalsverða reynslu, þrátt fyrir ungan aldur, m.a. með yngri landsliðum og A-landsliðinu. Ég mun fara yfir það á næstu vikum hverjir styrkleikar og veikleikar okkar eru og gera ráðstafanir í kjölfarið."
Á meðfylgjandi mynd eru þeir Darri Freyr Atlason og Lárus Sigurðsson framkvæmdastjóri Vals.