Thomas Guldborg Christensen í Val
Thomas Guldborg Christensen, 31 árs danskur varnarmaður sem leikur með Hammarby IF í Svíþjóð hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Vals út tímabilið. Thomas er kominn með leikheimild og getur spilað leik Vals gegn Víkingum á sunnudagskvöld.
Thomas Guldborg er fæddur í Bagsværd sem er útborg norðvestan Kaupmannahafnar. Thomas hóf feril sinn hjá Akademisk Boldklub og hefur auk þess leikið með Viborg, Velje, Herfolge, Koge og svo nú síðustu tvö tímabilin með Hammarby þar sem hann hefur leikið 57 leiki. Samtals hefur Thomas leikið 188 leiki með ofangreindum liðum.
Thomas Guldborg á 32 leiki með yngri landliðum Danmerkur.
Thomas Guldborg Christensen:
"Ég er spenntur fyrir að koma til félagsins sem ég hef heyrt að sé metnaðarfullt í efstu deild og það líkar mér. Að sögn er aðstaðan hjá Val ein sú besta á landinu og þjálfararnir góðir. Ég hef bara heyrt jákvæða hluti af félaginu. Valur er með nokkuð ungt lið og ég vil hjálpa liðinu að vaxa og þroskast ef ég get það.
Mínir styrkleikar eru helst að ég spila fyrir liðið og liðsfélagan, það gengur fyrir. Fyrir mér er mikilvægt að halda uppi góðu varnarskipulagi og þar er tel ég styrk minn vera í samskiptum við hina varnarmennina. Ég tel mig öflugan í návígjum og kann að lesa leikinn.
Ég vil taka ábyrgð á vellinum, segja mönnum til innan vallar sem utan og hjálpa þeim. Ef ég get gert samherja mína og liðið betra þá er það gott.
Birkir Már Sævarsson, fyrrum leikmaður Vals en jafnframt dyggur stuðningsmaður félagsins benti knattspyrnudeild á Thomas hafði eftirfarandi að segja um leikmanninn: "Þetta er mjög góður leikmaður, mikill leiðtogi og gefur mikið af sér í hóp. Ég hefði ekki mælt með nema gæða leikmanni fyrir mitt félag".
Ljóst er að með Thomas Guldborg er kominn mjög leikreyndur varnarmaður en ekki síður leiðtogi með reynslu í hópinn. Knattspyrnudeild Vals fagnar komu leikmannsins og bindur miklar vonir við hann.
Eins og áður segir er Thomas kominn með leikheimild og getur
spilað gegn Víkingi á sunudagskvöld.
Meðfylgjandi mynd er af heimasíðu Hammarby